Sólinn fer hækkandi á lofti og höfum við notið útiverunnar meira og meira, okkur öllum til ánægju.
Ýmislegt var brallað í febrúarmánuði. Við fögnuðum vetrarhátið með því að koma með vasaljós í leikskólan og sum börnin nutu samspils ljós og skugga í salnum með stóru börnunum.
Mikið fjör var á öskudaginn en þá mættu allir í búining og kötturinn var sleginn úr tunninni í salnum. Gaman var að sjá hversu mörg börn höfðu kjark til að standa fyrir framan alla í leikskólanum og eiga sina stund þegar sleginn var kötturinn úr tunninni.
Bolludagur og sprengidagur komu einnig með sínu tilheyrandi. Seinna í vikunni bökuðum við snúða í tilefni mömmu og ömmukaffi sem heppnaðist einstaklega vel. Vil þakka ykkur fyrir hversu vel var mætt.
Brúðuleikhúsið um íslenska fílinn mætti í hús í lok mánaðar og börnin stóðu sig virkilega vel að horfa, enda skemmtilegt.
Minni á Grænfánaverkefnið okkar, en við viljum endilega fá ykkur í lið með okkur og koma með „auka“ plastpoka að heiman fyrir bleyjurnar okkar og svo taupoka merktan barninu fyrir blaut föt í körfunum inni á baði ásamt aukafötunum.
Við í Dvergasteini stefnum einnig á að verða heilsueflandi leikskóli, og erum með það ferli í gangi. Eitt af þeim atriðum sem við þurfum að uppfylla er að hafa hreyfistund á hverjum degi. Þar sem við förum ekki út alla daga, hef ég bætt hreyfistund inná dagskipulagið á hverjum degi. Við erum því í þremur hópum milli 9-10 á morgnanna. Könnunarleikur, hreyfistund eða jóga í fataklefa og sköpun.
Þetta virkar ótrúlega vel og Þóra okkar hefur verið dugleg að kenna börnunum krakkajóga. Krakkajóga byggist á fara í jógastöður og herma eftir dýrum.
Páskaföndur verður á vegum foreldrafélagsins laugardaginn 17. mars.
Brynja
Deildastjóri Ljúflingsholts