Komið þið sæl.
Í listaskála er alltaf nóg að gera og eins og sjá má, frammi í fataklefa, eru komnir sandálfar upp úr sandkassanum og flúnir inn úr kuldanum! Börnin fylltu blöðrur af sandi, með trekt, og límdu hár, augu og teiknuðu munn og nef á álfinn sinn. Annars erum við líka byrjuð að undirbúa jólin og föndrið fer brátt að skreyta allt litla húsið.
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á leikskólanum þann 15. nóvember síðastliðinn. Þá fóru eldri börn leikskólans í heimsókn á bókasafnið og sungu fyrir gestkomandi og börnin á Hlíð (yngri deildin á Drafnarborg) heimsóttu börnin á Ljúflingsholti. Þau sungu svo saman öll lögin sem þau hafa verið að æfa sig í, í haust, meðal annars lög um krumma og haustið.
Börnin fóru í könnunarleik og tónlistarkönnunarleik með hljóðfærum, æfðu sig að skera og móta með grænum heimatilbúnum leir og að sjálfsögðu erum við farin að æfa nokkur jólalög í söngstundinni og skoða vetrar- og jólabækur.
Takk fyrir ljúfan nóvember.
Bestu kveðjur
Starfsfólk Ljúflingsholts