Á degi íslenskrar náttúru, þann 16. september, fengum við fimmta Grænfánann okkar afhentan!! En um þessar mundir höfum við starfað í verkefninu „skólar á grænni grein“ í 10 ár.
Hrærð og stolt tókum við á móti honum í garðinum í Drafnarborg. Brekkkubörn sem eru i umhverfisnefnd skólans tóku á móti fánanum frá Landvernd og sungu fyrir viðstadda en ráðherrarnir tveir Lilja og Guðmundur dróu fánann að húni.
Einnig var undirritaður nýr styrktarsamningur Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Landverndar vegna verkefnisins Skólar á grænni grein. Með samningnum er rekstur verkefnisins hér á landi tryggður til næstu fimm ára. Undirritunin fór fram við hátíðlega athöfn í leikskólanum . Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðuherra, Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðherra og Auður Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, undirrituðu samninginn.
Undirritunin markar upphaf afmælisárs Skóla á grænni grein, en í ár eru 20 ár frá því það hóf göngu sína hér á landi. Andakílsskóli, Fossvogsskóli og Selaásskóli voru fyrstu skólarnir á Íslandi til að skrá sig til leiks. Stuttu síðar hófu leikskólar þátttöku og var leikskólinn Norðurberg í Hafnarfirði sá fyrsti á Íslandi og einn sá fyrsti í heiminum öllum til að hefja þátttöku í verkefninu. Nú eru þátttökuskólar hátt í 200 á öllum skólastigum hér á landi og eru þeir í hópi 51 þúsund skóla í 70 löndum um allan heim sem taka þátt.