Hob's Adventure

Verkefnið Hob´s Adventure er tveggja ára Erasmus+ samstarfsverkefni 4 landa, Eistlands, Lettlands, Slóveníu og Íslands, um gerð námsefnis um lífbreytileika fyrir 5-9 ára börn og nær því til tveggja skólastiga, leikskóla og grunnskóla.

Ætlunin var að hvert land leggi til a.m.k. 9 verkefni í verkefnabankann, í lokin ættu því að vera a.m.k. 36 verkefni fyrir skóla til að velja úr. Verkefnin verða gefin út á rafrænu formi á þessum 4 tungumálum auk ensku.

Áhersla er m.a. lögð á að færa ræktunarstarfið inn í kennslustofurnar með ræktun pottaplantna en einnig að auka útikennslu og útiveru. Verkefnin eiga að vera sem mest verkleg, en þaðan kemur nafn verkefnisins Hob´s Adventure, Hob = „hands on biodiversity“ eða verkleg lífbreytileikakennsla. Aðalatriðið er að nemendur taki þátt, læri um, upplifi og uppgötvi lífríkið í sínu nágrenni.

Leikskólinn Drafnarsteinn skilaði inn verkefni í samstarfið um gróðursetningu lauka og rannsókn á breytilegu náttúrumhverfi skólans ásamt því að senda tvo starfsmenn til Eistlands í febrúar 2020 til að hjálpa með ritstjórn og útfærslu verkefnanna.

Verkefnið hófst haustið 2018 og stendur til hausts 2020. Á Íslandi eru 11 leik- og grunnskólar þátttakendur í verkefninu.

Prenta | Netfang

Comeniusarverkefni Dvergasteins 2011 til 2013

Comenius 2011Puppets with a green mission 

pwagm 2Nú höfum við hafið tveggja ára Evrópusamstarfsverkefni með Belgíu, Hollandi, Litháen, Rúmeníu, Slóveníu,
Tyrklandi, Spáni og Portúgal.

Verkefnið heitir Puppets with a green mission og byggir á okkar fyrra Evrópusamstarfsverkefni en að þessu sinni snúum við okkur að umhverfismennt. Brúður verða áfram í skiptinemahlutverkum en allar hafa þær einnig ,,græn'' hlutverk.

Í heimsóknum brúðanna koma þau með upplýsingar um þeirra skóla og heimaland ásamt því að koma með tilraunabox um þeirra frumefni eða þátt.  Hlutverk Trölla og Skellu, sem eru brúðurnar okkar, hafa til dæmis tilraunabox með sér sem hefur að geyma ýmislegt um ELD.

Verkefnastjóri verkefnisins og skólans er Linda Björg Birgisdóttir deildarstjóri Ljúflingsholts

 

Heimasíða verkefnisins er : http://www.puppetswithamission.eu

Heimasíða Comenius á Íslandi er:  http://www.comenius.is

 

Prenta | Netfang

Comeniusarverkefni Dvergasteins 2008-2010

Puppets with a mission

Haustið 2008 byrjuðum við á Evrópusamstarfsverkefni með Ungverjalandi og Belgíu (flæmska og franska hluta). Verkefni þetta (sem fékk nafnið Puppets with a mission) gekk út á að hvert land hafði brúðu sem fulltrúa sinn sem fór í skiptinám til hinna samstarfslandanna, mánuð í senn.  Brúðurnar heimsóttu skólana og kenndi börnum og fullorðnum söngva, orð og að telja á tungumáli sínu ásamt því að fræða þau um landið sitt. Brúðurnar höfðu að auki með sér fræðslumyndband um dag í lífi barns frá sínu landi, glærukynningu um landið sitt og disk með barnasöngvum. Brúðan frá Íslandi var Trölli tröllastrákur og frá Ungverjalandi var drekinn Süsü, frá frönsku Belgíu var Strumpur og frá flæmsku Belgíu komu vinirnir Jules og Pompom.

Evrópusamstarf sem þetta byggist á miklum og góðum samskiptum á milli landanna og starfsmanna skólanna. Á hvoru ári fyrir sig tóku öll löndin á móti samstarfsfélögum sínum. Veturinn 2008-2009 heimsóttum við frönsku Belgíu í janúar, Ungverjaland í mars og svo komu þau til Íslands í maí.  Þessar heimsóknir fólu í sér mikil fundarhöld, endurskoðun og mat á verkefninu ásamt því að kynnast landi og þjóð lítillega. Veturinn 2009-2010 var Ungverjaland heimsótt í október, við tókum á móti gestum í mars og enduðum svo á því að heimsækja flæmsku Belgíu í maí, þar sem lok verkefnisins fóru fram.

Verkefnið gekk mjög vel og gaf okkur mikið. Við kynntumst samstarfsaðilum okkar vel og börnin kunnu svo sannarlega að meta skiptinemana sem komu til okkar og blésu nýjum vindum inn í skólastarfið.

Hér er linkurinn inn á heimasíðu verkefnisins: www.puppetswithamission.eu

Prenta | Netfang